Veiðileiðsögn – Laxá í Þingeyjarsýslu

Þessi leiðsögn er sett á blað til að hjálpa nýjum gestum og ef til vill gömlum við veiðarnar. Við byggjum á okkar reynslu en örugglega eru eihverjir staðir sem ekki er getið.

Okkur finnst best að haga veiðunum þannig að fara víða og festast ekki í veiðistöðum. Urriðarnir taka yfirleitt með stæl ef þeir ætla sér á annað borð að gera það. Við förum hratt yfir og göngum helst sem mest af því svæði sem okkur er úthlutað. Komum gjarnan aftur á heitustu staðina og finnst ánægjan í réttu hlutfalli við yfirferðina. Menn verða að átta sig á því að fiskarnir eru út um alla  á. Þeir eru ekki tjóðraðir niður og þótt að einhver staður hafi einhvern tíma gefið þá er ekki á vísan að róa. Menn eru of fastir í þessum eða hinum staðnum. Hafið athyglina í lagi hlustið og horfið og takið eftir því sem er að gerast í kringum ykkur. Það skilar oftar árangri en kreddur eins og þessi pistill. Oftast erum við við veiðar í félagsskap annarra og þá er mikilvægt að sýna öðrum veiðimanni háttvísi og taka tillit til hans. Háttsemisreglurnar eru ekki skrifaðar fremur en hjónabandssáttmálar en tillitssemi og lipurð er sjálfsögð. Munum eftir því að hérna er griðland fugla og við erum gestir – spillum ekki varpi – skiljum ekki eftir okkur rusl (þ.m.t. sigarettustubba) – ekki henda girnislengjum sem fuglarnir geta flækt sig í. 

Við vöðum eins lítið og nokkur tök eru á enda leka allar vöðlur að lokum. Einnig er miklu árangursríkara að lengja og bæta köstin en vaða að höfðingjunum. Athuga skal að gera það að reglu að kast fyrst á þá leið sem vaða á. Þetta gefur oft fisk og er góður ávani. Sú almenna regla gildir að vaða ekki yfir miðja á. Kasta má hvert sem er en miðlínan gildir um staðsetningu veiðimannsins. Séu hólmar og eyjar á svæðinu þá er skiptingin milli veiðisvæða um þann ál sem meira vatnið flytur. Hafið í huga að Laxá er önnur stærsta lindá landsins og varasamt er að vaða tæpt. Margir veiðimenn hafa sloppið með skrekkinn og lent í talsverðum svaðilförum. Vaðið aldrei undan straumi yfir á nema að þið vitið að það sé hægt. Menn hafa oft lent í sjálfheldum við að vaða undan straumi (geta ekki snúið við) án þess að gjörþekkja aðstæður. Best er að vera í félagi við annan veiðimann ef tæpt þarf að fara. Mæli sterklega með vaðstaf sem er safelldur og hafður með í ferðina. Alla vega er best að vera ekki einn að vasla þá er allavega vitni að atburðinum.

Höfum ekki sett á blað neitt hvernig við veiðum svæðin enda er það persónulegt og engin ástæða til að þröngva okkar aðferðum uppá aðra. Látum nægja að benda á svæði sem hafa gefið okkur. Menn geta síðan notað straumflugur – þurrflugur og kúluhausa – tökuvara og allt það. Menn eru alveg frjálsir af því að kasta uppfyrir sig eða jafnvel niðurfyrir sig. Stundum eru menn með rembing yfir þessari eða hinni aðferðinni (t.d. þurrflugurembingurinn í “A River Runs Through It”) en hafið hugfast að við erum hérna til að skemmta okkur en ekki fullnægja þörfum annarra um aðferðafræði.

Oft heyrum við kvartað yfir því að ekki sé fiskur á þessum eða hinum staðnum. Það er rangt – fiskurinn er alltaf í ánni og einnig lygilega staðbundin. Það að hann óski ekki eftir nánum kynnum skrifast á kostnað veiðimanna sjálfra. 

Ef veiðigyðjan brosir til okkar þá gleðjumst við en hreykjum okkur alls ekki. Ef ekki þá er náttúran unaðsleg og fuglarnir fallegir. Félagsskapurinn gæti einnig kætt mann en í guðanna bænum ekki kvarta.